Tuesday, November 25, 2008

Konfektgerð

Við hittumst 3 vinkonur í gær og bjuggum til konfekt.
Vorum með 4 mismunandi gerðir.





Ætla að deila því með ykkur hérna ;)


->Hollustu konfekt með piparmyntu.
(þetta er botninn úr jarðarberjakökunum hérna fyrir neðan, ótrúlega gott.)

200g kókósmjöl
250g döðlur
3 msk hreint kakóduft
smá vatn EF þarf.

Sett í matvinnsluvél,
ATH! setja lítið í einu því við bræddum næstum því úr vélinni minni hehe.
Hnoðuðum litlar kúlur úr þessu og dýfðum í brætt suðusúkkulaði með pipp súkkulaði útí. Létum súkkulaðið ekki þekja kúlurnar.

->Nougat kúlur
Í þeim er bara nougat sem við hnoðum í kúlur og dýrum í brætt suðusúkkulaði.

->Döðlu/marsipan konfekt.
Þetta eru bara döðlur (hægt að nota bæði Hagvers og lífrænar) sem við opnum og setjum marsipan inní og hjúpum í súkkulaði.

->Möndlukonfekt.
ALLGJÖR SNILLD!

100 g Hagvers heilar möndlur með hýði
150 g Odense núggat
Hunang
Green&Black´s 70 prósent súkkulaði.

Smyrjið möndlurnar með hunangi, helst með fingrunum svo að hunangið fari vel á möndlurnar. Setjið þær á bökunarpappír inn í ofn á plötu og ristið við 180°C í 7 til 10 mínútur.

Takið möndlurnar út og látið kólna. Myljið ristuðu möndlurnar með kökukefli og blandið sallanum við núggatið. Kælið blönduna.

Bræðið því næst súkklaðið, búið til kúlur úr núggat-möndlublöndunni og dýfið kúlunum í brætt súkkulaðið.

Við kláruðum reyndar 70% súkkulaðið áður en núggatblandan var búin svo við settum suðusúkkulaði blandað með appelsínuhnöppum á sumar kúlurnar og það var líka mjög gott.

Saturday, November 22, 2008

Jarðarberjakökur

Við fengum líka að smakka þetta á námskeiðinu góða sem ég fór á hjá Sollu, Hagkvæm Hollusta.
Rosalega góður eftirréttur en ég hugsa samt að ég sjálf myndi skipta jarðarberjunum út fyrir td. banana, finnst jarðarberin heldur súr í þetta.
En það er bara minn persónulegi smekkur.
En botninn ætla ég að nota í konfekt, hann er algjört sælgæti!!

Jarðaberjakökur

Botn
200g kókósmjöl
250g döðlur
3 msk hreint kakóduft
smá vatn EF þarf.

Allt sett í matvinnsluvél og blandið vel saman, setjið 1-2 msk af deigi í hvert form og þjappið niður.

Fylling
100g kasjúhnetur lagðar í bleyti í 2klst (annars verður kremið kornótt)
1-1,5 dl agave sýróp
smá himalaya salt eða sjávarsalt.
6-800g frosin jarðarber

Setjið kasjúhneturnar og agavesýróp í matvinnsluvél og maukið, bætið svo nokkrum saltkornum útí, setjið jarðaberin útí, nokkur í einu svo vélin ráði við þau og blandið þar til það er silkimjúkt. Notið ískúluskeið og setjið 1 væna kúlu í hvert form ofan á botninn og setjið í frysti þar til frosið.

Súkkulaðikrem (notað á tyllidögum)
1 dl agavesýróp
2dl kókósolía í fljótandi formi
2dl kakóduft.

Allt hrært saman í skál, setjið smá skvettu yfir hverja köku.

Friday, November 21, 2008

Hafra og hnetubollur/buff

Ég fékk þessa uppskrift á frábæru námskeiði hjá henni Sollu "grænu" í vikunni, námskeiðið heitir Hagkvæm Hollusta og ég mæli algjörlega með því! Kíkið á www.himnesk.is.

Hún útbjó þessar bollur á námskeiðinu og þær eru þvílíkt SÆLGÆTI!



Hafra og hnetubollur

5dl soðnir heilir hafrar (eða annað korn/grjón)
2 hvítlauksrif, pressuð
½ rauðlaukur, smátt saxaður
2 gulrætur, rifnar
1 msk timian
1 tsk karrý duft eða mauk
1 tsk grænmetiskraftur
150g rifinn ostur
150g malaðar heslihnetur (eða aðrar hnetur)
2-3 msk mango chutney
smá himalayasalt og nýmalaður pipar
ferskt grænt krydd að eigin vali.

Setjið allt í hrærivélaskál og hrærið saman og mótið litlar bollur.
Bakið í ofni 200°c í 8-12 mín (fer eftir stærð)